Nýverið féll áhugaverður dómur í Hæstarétti þar sem belgíska félagið BVBA De Klipper, umbjóðandi LOCAL lögmanna, var sýknað í máli höfðuðu af C Trade ehf. til innheimtu meintrar skuldar. Í málinu krafðist C Trade greiðslu samkvæmt nánar tilgreindum reikningum sem til voru komnir vegna fiskútflutnings. Laut ágreiningur aðila meðal annars að því hvort umræddir reikningar hefðu í reynd verið greiddir, en BVBA De Klipper byggði á að svo væri og lagði fram fullnaðarkvittanir árituðum af fyrirsvarsmönnum C Trade því til staðfestingar. C Trade hélt því aftur á móti fram að undirskriftirnar væru falsaðar og leitaðist við að færa sönnur á þann málatilbúnað með öflun undir- og yfirmatsgerða. Niðurstaða beggja matsgerða var hins vegar sú að hinar umdeildu undirskriftir væru ótvírætt ófalsaðar. Hæstiréttur féllst að öllu leyti á málatilbúnað BVBA De Klipper og sýknaði því félagið af kröfum C Trade, sem fyrr segir, en dómurinn er skýr um bindandi réttaráhrif útgefinna fullnaðarkvittana.

Fræðast má nánar um málið hér:

https://www.haestirettur.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=988f414e-b6cf-4ccc-9961-0be9ffecf043