Þann 18. maí sl. kvað Landsréttur upp merkilegan úrskurð í máli einstaklings sem hefur þurft að verjast um árabil ólögmætum innheimtuaðgerðum lífeyrissjóðs.

Málsatvik málsins eru í stuttu máli þau að umbjóðandi LOCAL lögmanna, A, setti bújörð sína að veði fyrir skuld bróður síns við lífeyrissjóðinn árið 2007. Bróðir A lést síðar og var dánarbúið tekið til opinberra skipta. Lífeyrissjóðurinn lét hins vegar hjá líða að lýsa kröfu sinni í dánarbúið. Þess í stað sótti lífeyrissjóðurinn hart að A og fór fram á nauðungarsölu á bújörð hans.

Á árinu 2014 höfðaði A svo dómsmál á hendur lífeyrissjóðnum til að fá veðsetninguna dæmda óskuldbindandi. Máli því lauk með þeim hætti að lífeyrissjóðurinn var sýknaður af kröfum A.

Á árinu 2016 lauk skiptum á dánarbúi bróðurs A svo með úthlutun til erfingja. Fjárhæð þeirra eigna sem var úthlutað úr dánarbúinu nam mun hærri fjárhæð en krafa lífeyrissjóðsins hljóðaði á og féll krafan því niður í samræmi við 2. mgr. 9. gr. laga um ábyrgðarmenn.

Lífeyrissjóðurinn vildi á hinn bóginn ekki sætta sig við þá niðurstöðu og fór fram á það við sýslumann á ný að bújörð A yrði seld á nauðungarsölu. Sýslumaður taldi þó að nokkur óvissa væri um fjárhæð kröfu lífeyrissjóðsins og stöðvaði nauðungarsöluna. Þá niðurstöðu kærði lífeyrissjóðurinn til héraðsdóms sem komst að þeirri niðurstöðu að nauðungarsölunni skyldi fram haldið. Taldi héraðsdómur sig meðal annars bundinn af fyrri niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli aðila þar sem veðsetningin var dæmd gild og lífeyrissjóðurinn sýknaður af kröfum A á grundvelli 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála.

LOCAL lögmenn kærðu úrskurð héraðsdóms til Landsréttar fyrir hönd A. Töldu LOCAL lögmenn og A að um væri að ræða ranga túlkun á 2. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála enda væru kröfur A annars efnis en í fyrra máli aðila og ný atvik hefðu átt sér stað eftir að niðurstaða héraðsdóms í því máli lá fyrir sem breyttu réttarstöðu aðila verulega. Krafðist A því að nauðungarsalan á bújörð hans yrði stöðvuð.

Skemmst er frá því að segja að Landsréttur féllst á rök A og staðfesti því ákvörðun sýslumanns um að stöðva nauðungarsöluna á bújörð A. Afar ánægjuleg niðurstaða eftir margra ára baráttu.