Félagaréttur og fyrirtækjaráðgjöf

Skoða öll starfssvið

LOCAL lögmenn hafa um langt skeið veitt fyrirtækjum og einstaklingum lögfræðilega ráðgjöf á sviði félagaréttar og fyrirtækjaráðgjafar þar sem lögmenn stofunnar hafa viðamikla þekkingu og reynslu. Alhliða fyrirtækjaráðgjöf er og hefur verið þungamiðja í starfsemi stofunnar allt frá stofnun. Rík tengsl og áralöng reynsla LOCAL lögmanna á hvers kyns verkefnum á sviði félagaréttar og tengdum starfssviðum eins og skattaráðgjöf, fjármögnun og samningarétti nýtist fyrirtækjum og stofnunum í ólíkum atvinnugreinum.

Meðal verkefna sem LOCAL lögmenn þjónusta á sviði félagaréttar eru:

Kaup og sala fyrirtækja. Áreiðanleikakannanir.

Að mörgu þarf að huga þegar kaup eða sala fyrirtækja er annars vegar, allt frá gerð tilboðsskilmála, fjármögnunarsamninga og áreiðanleikakannana yfir í gerð kaupsamninga,  veðsamninga og hluthafasamkomulaga. Eftir atvikum verður jafnframt að tryggja að ákvarðanir um kaup eða sölu séu teknar af bærum stjórnareiningum félaga með formlegum hætti. Þá má ekki vanmeta skattalegar afleiðingar sem leiða gjarnan af viðskiptum með hluti í félögum. Iðulega fylgja umtalsverðir hagsmunir slíkum viðskiptum og verður fagleg ráðgjöf því seint ofmetin.

Sérfræðingar LOCAL lögmanna hafa ekki aðeins viðamikla þekkingu og reynslu af verkefnum á sviði félagaréttar og fjármögnun fyrirtækja heldur einnig öðrum réttarsviðum sem ávallt tengjast kaupum og sölu fyrirtækja eins og skattarétti og samningarétti. Þá býr stofan yfir öflugu tengslaneti við fulltrúa lánastofnana og aðra fjármögnunaraðila sem nýtist viðskiptavinum okkar. Við veitum því heildstæða ráðgjöf um hvers kyns álitaefni sem viðkoma kaupum og sölu fyrirtækja og leggjum okkur fram við að tryggja hagsmuni  okkar viðskiptavina í hvívetna.

LOCAL lögmenn hafa komið að stórum samningum um sölu fyrirtækja þar sem við önnumst m.a. fyrir hönd okkar viðskiptavina samningaviðræður við gagnaðila og alla skjalagerð til lúkningar viðskiptum. Einnig framkvæmum við lögfræðilegar áreiðanleikakannanir í aðdraganda viðskipta þar sem lagaleg staða félags er tekin út með skipulögðum hætti.

Ráðgjöf LOCAL lögmanna varðandi kaup og sölu fyrirtækja felst meðal annars í eftirfarandi:

  • gerð tilboðsskilmála;
  • yfirferð og val á fjármögnunarkostum og samskipti við lánveitendur;
  • framkvæmd lagalegrar áreiðanleikakönnunar;
  • aðstoð með að tryggja lögmæta ákvarðanatöku innan félaga um viðskipti;
  • samningaviðræður og skjalagerð;
  • gerð hluthafasamkomulaga; og
  • tilkynningar til opinberra aðila

Ráðgjöf við stofnun félags, val á félagaformi

Við stofnun félags í atvinnurekstri er mikilvægt að velja félagaform sem hentar eðli og umfangi viðkomandi rekstrar, en ábyrgð eigenda, skattlagning og úttektarheimildir eru ólíkar milli rekstrarforma. Ekki er síður brýnt að tryggja rétta stofnun félags í upphafi og að þýðingarmikil atriði séu ekki útistandandi sem kann að reynast örðugt að vinda ofan af síðar.

Áralöng reynsla og þekking LOCAL lögmanna á sviðum félagaréttar og skattaréttar nýtist einstaklingum, fyrirtækjum og öðrum sem hafa í hyggju að stofna félag utan um atvinnurekstur eða þurfa ráðgjöf þar að lútandi.

LOCAL lögmenn veita ráðgjöf um hvers kyns lagaleg álitaefni er varða stofnun félags í atvinnurekstri og val á félagaformi, þ.á m. um ákjósanlega skjalagerð vegna stofnunar félags, skattalegt umhverfi ólíkra félagaforma, ábyrgðir eigenda og gerð hluthafasamkomulaga þeirra á milli.

Hér að neðan má finna yfirlit um helstu félagaform á Íslandi:

Einkahlutafélög (ehf.) 

Um einkahlutafélög gilda lög nr. 138/1994 um einkahlutafélög.

Í einkahlutafélagi getur verið minnst einn stofnandi og hluthafi ólíkt öðrum félagaformum þar sem að lágmarki þurfa að vera tveir stofnendur og félagsmenn eða hluthafar. Stofnendur og síðari hluthafar einkahlutafélaga geta verið bæði einstaklingar og lögaðilar. 

Einkahlutafélög eru félög með svonefndri takmarkaðri ábyrgð sem þýðir að ábyrgð hluthafa takmarkast við framlagt hlutafé þeirra. Hluthafar einkahlutafélags bera því ekki beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð að lögum á skuldbindingum þess eins og þegar sameignar- og samlagsfélög eru annars vegar.

Ekkert hámark er á hlutafé eða fjölda hluthafa í einkahlutafélögum. Lágmarkshlutafé (stofnfé) er hins vegar kr. 500.000 sem þarf allt að vera greitt inn til félagsins fyrir skráningu þess hjá fyrirtækjaskrá Skattsins.  Skráningu þarf að fylgja staðfesting kjörins endurskoðanda eða skoðunarmanns félagsins um að þeir hafi sannreynt að stofnfé hafi verið greitt í samræmi við upplýsingar í stofngögnum. Heimilt er að greiða hlutafé með öðrum verðmætum en peningum, sem skulu hafa fjárhagslegt gildi, en í slíkum tilvikum þarf að fylgja staðfesting lögmanns eða endurskoðanda um að viðkomandi verðmæti samsvari endurgjaldinu, þ.e. hinum afhentu hlutum, og að verðmætið hafi verið afhent. Það athugast að ekki má greiða fyrir hlutafé skv. framangreindu með vinnuframlagi en greiða má með kröfu á hendur stofnendum.

Í einkahlutafélögum eru ekki gefin út hlutabréf en stjórn félags skal þegar við stofnun gera hlutaskrá og tryggja að hún beri réttar upplýsingar á hverjum tíma. Þetta er mikilvæg skylda því skráning í hlutaskrá er almennt forsenda þess að sá sem eignast hefur hlut í einkahlutafélagi  geti beitt réttindum sínum sem hluthafi.

Skylt er að skipa stjórn í einkahlutafélögum sem má minnst samanstanda af einum aðalmanni og öðrum til vara ef hluthafar eru fjórir eða færri. Hins vegar er ekki skylt að ráða framkvæmdastjóra í einkahlutafélagi en sé stjórnarmaður einn er honum heimilt að vera framkvæmdastjóri. 

Tekjuskattur á einkahlutafélög er 20%. Úttektir eigenda í einkahlutafélögum fara almennt fram í formi arðgreiðslna sem eru háðar strangari reglum en t.d. í samlags- og sameignarfélögum auk þess sem þær bera 22% fjármagnstekjuskatt. Þá gilda afar strangar reglur um lánveitingar og tryggingar einkahlutafélags til hluthafa þess.   

Einkahlutafélög eru skráð hjá fyrirtækjaskrá Skattsins. Skila þarf inn viðeigandi stofngögnum til fyrirtækjaskrár og greiða skráningargjald sem er kr. 140.500. Sem fyrr segir verður að auki að reiða fram lágmarkshlutafé kr. 500.000 fyrir skráningu.

 

Hlutafélög (hf.)

Um hlutafélög gilda lög nr. 2/1995 um hlutafélög.

Lagaumhverfi hlutafélaga eru í flestum aðalatriðum eins og hjá einkahlutafélögum, s.s. varðandi takmarkaða ábyrgð hluthafa. Þó eru strangari kröfur gerðar til hlutafélaga um nokkur veigamikil atriði. Þannig verða minnst þrír einstaklingar að skipa stjórn hlutafélaga og skylt er að ráða framkvæmdastjóra.

Í hlutafélögum verða minnst að vera tveir stofnendur og hluthafar og getur hlutafé minnst verið skipt í tvo hluta og að lágmarki vera kr. 4.000.000. Ólíkt einkahlutafélögum eru gefin út hlutabréf í hlutafélögum sem teljast til viðskiptabréfa. Jafnframt er heimilt að skrá hluti í hlutafélögum með rafrænni eignaskráningu.

 Tekjuskattur á hlutafélög er 20%. Úttektir eigenda í hlutafélögum fara almennt fram í formi arðgreiðslna sem eru háðar strangari reglum en t.d. í samlags- og sameignarfélögum auk þess sem þær bera 22% fjármagnstekjuskatt. Þá gilda afar strangar reglur um lánveitingar og tryggingar hlutafélags til hluthafa þess.  

Hlutafélög eru skráð hjá fyrirtækjaskrá Skattsins. Skila þarf inn viðeigandi stofngögnum til fyrirtækjaskrár og greiða skráningargjald sem er kr. 276.500. Þá verður að auki að reiða fram lágmarkshlutafé kr. 4.000.000 fyrir skráningu.

 

Samlagsfélög (slf.)

Fjallað er um samlagsfélög í lögum nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð. 

Samlagsfélög eru með algengustu rekstrarformum hérlendis á eftir einkahlutafélögum sem helgast að líkindum af einföldu lagaumhverfi, auknu frelsi eigenda til úttekta og lágs stofnkostnaðar. Þá er ekki skilyrði fyrir stofnun eða skráningu samlagsfélags að ákveðin fjárhæð sé lögð fram í stofnfé (hlutafé).

Samlagsfélög byggjast á samningi tveggja eða fleiri aðila, þ.e. félagsmanna, um sameiginlega fjárhagslega starfsemi þar sem félagsmönnum er skipt í tvær tegundir. Annars vegar er a.m.k. einn félagsmaður sem ber beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins og hins vegar einn eða fleiri félagsmenn hverra ábyrgð á skuldum félagsins takmarkast við fjárframlag þeirra til félagsins. Ábyrgð þeirra er þannig takmörkuð með viðlíka hætti og félagsmanna í (einka)hlutafélögum.

Bæði lögráða einstaklingar og lögaðilar geta verið stofnendur og síðar félagsmenn í samlagsfélagi. Þó geta hjón ein og sér eða með ófjárráða börnum sínum ekki myndað samlagsfélag eða sameignarfélag sem er sjálfstæður skattaðili.

Ekki er skylt að skrá samlagsfélög hjá fyrirtækjaskrá Skattsins. Sé það hins vegar gert er skylt að gera skriflegan félagssamning sem skal undirritaður af öllum stofnendum og þeim sem síðar kunna að ganga í félagið.

Í félagssamningi skal tilgreint hvort samlagsfélag sé sjálfstæður eða ósjálfstæður skattaðili. Hafi samlagsfélag verið skráð sem sjálfstæður skattaðili er tekjuskattur á félagið 37,6%. Til samanburðar þá er tekjuskattur á einkahlutafélög 20%.

Helsti kosturinn við samlagsfélög er lægri stofnkostnaður, einfaldara lagaumhverfi og mun meira svigrúm sem það form veitir eigendum (félagsmönnum) til að sníða reglur um samstarf sitt eftir persónulegum þörfum samanborið við t.d. einkahlutafélög. Þá eru rýmri heimildir til úttekta fjármuna úr samlagsfélögum og enginn skattur greiðist af slíkum úttektum. Reglur um fjárúttektir veita því eigendum samlagsfélaga meira frelsi en t.d. í tilviki einkahlutafélaga þar sem strangari reglur gilda.

Unnt er að takmarka verulega ókosti þessa félagaforms sem fylgir persónulegri ábyrgð þess félagsmanns sem ber ótakmarkaða ábyrgð (ábyrgðarmanns) með því að skrá einkahlutafélag sem viðkomandi ábyrgðarmann. Sömu eigendur geta verið eigendur beggja félaga, þ.e. samlagsfélagsins og einkahlutafélagsins sem ábyrgðaraðila, en endanlegir eigendur bera þá ekki persónulega ábyrgð á skuldbindingum samlagsfélagsins þar sem hluthafar einkahlutafélaga ábyrgjast ekki skuldbindingar þess umfram hlutafjárframlög sín.

Samlagsfélög eru skráð hjá fyrirtækjaskrá Skattsins. Skila þarf inn viðeigandi stofngögnum til fyrirtækjaskrár og greiða skráningargjald sem er kr. 95.000. Ákveðin lágmarksfjárhæð í stofnfé er ekki skilyrði fyrir skráningu eða stofnun samlagsfélags.

  

Sameignarfélög (sf.)

Um sameignarfélög fer eftir samnefndum lögum nr. 50/2007.

Sameignarfélag er félagsform þar sem allir félagsmenn bera beina óskipta og ótarkmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins, þ.e. þeir ábyrgjast almennt skuldbindingar félagsins með öllum sínum eignum. Af þeim sökum byggist samstarf félagsmanna slíkra félaga því almennt á persónulegum forsendum og nánu sambandi þeirra á milli.

Vegna framangreinds eðlis sameignarfélaga með hina persónulegu ábyrgð félagsmanna í forgrunni eru reglur um stofnun og starfsemi slíkra félaga mun einfaldari en t.d. þær sem gilda um einkahlutafélög. Á hinn bóginn gilda strangari reglur um framsal eignarhluta í sameignarfélögum en slík framsöl eru óheimil án skriflegs samþykkis allra félagsmanna nema félagssamningur kveði á um annað. Þá erfist félagsaðild í sameignarfélagi almennt ekki við andlát félagsmanns heldur er hlutur hans innleystur af öðrum við þær aðstæður.

Við eigendaskipti á hlut í sameignarfélagi ber framseljandinn almennt áfram óskipta ábyrgð, samhliða framsalshafa (nýjum félagsmanni) á skuldbindingum sem stofnuðust á hendur félaginu fyrir eigendaskiptin. Ábyrgð framseljandans gildir uns kröfuhafi telst hafa leyst hann undan ábyrgð.

Ekki er skilyrði að kjósa stjórn eða framkvæmdastjóra í sameignarfélagi og getur þá hver og einn félagsmaður gert ráðstafanir sem eru eðlilegur þáttur í rekstri félagsins og enginn félagsmanna hefur lýst sig mótfallinn.

Bæði lögráða einstaklingar og lögaðilar geta verið stofnendur og síðar félagsmenn í sameignarfélagi. Þó geta hjón ein og sér eða með ófjárráða börnum sínum ekki myndað samlagsfélag eða sameignarfélag sem er sjálfstæður skattaðili. 

Ekki er skylt að skrá sameignarfélög hjá fyrirtækjaskrá Skattsins. Sé það hins vegar gert er skylt að gera skriflegan félagssamning. Félagssamningur skal undirritaður af öllum stofnendum og þeim sem síðar kunna að ganga í félagið.

Í félagssamningi skal tilgreint hvort sameignarfélag sé sjálfstæður eða ósjálfstæður skattaðili. Hafi sameignarfélag verið skráð sem sjálfstæður skattaðili er tekjuskattur á félagið 37,6%. Sé félagið hins vegar ósjálfstæður skattaðili eru einstakir félagsmenn skattlagðir eftir eignarhluta þeirra í félaginu. Til samanburðar þá er tekjuskattur á einkahlutafélög 20%.

Kosturinn við sameignarfélagsformið er sveigjanleiki þess en það veitir eigendum (félagsmönnum) mun meira færi á að sníða reglur um samstarf sitt eftir persónulegum þörfum en í t.d. einkahlutafélögum. Þá gilda einfaldari reglur um fjárúttektir eigenda í sameignarfélögum sem veitir meira frelsi en í tilviki t.d. einkahlutafélaga þar sem strangari kröfur eru gerðar.

Á hinn bóginn þarf að huga vel að ábyrgð eigenda sameignarfélags en þeir bera sem fyrr segir beina, óskipta og ótakarkaða ábyrgð á skuldbindingum sameignarfélags. Hins vegar geta eigendur takmarkað þessa áhættu með því að halda á eignarhlut sínum í gegnum félag með takmarkaðri ábyrgð eins og einkahlutafélagi sem þá er skráður félagsmaður (ábyrgðaraðili) í viðkomandi sameignarfélagi.

Sameignarfélög eru skráð hjá fyrirtækjaskrá Skattsins. Skila þarf inn viðeigandi stofngögnum til fyrirtækjaskrár og greiða skráningargjald sem er kr. 95.000. Ákveðin lágmarksfjárhæð í stofnfé er ekki skilyrði fyrir skráningu eða stofnun sameignarfélags.

Samlagshlutafélög

Um samlagshlutafélög er fjallað í 20. kafla laga um hlutafélög nr. 2/1995.

Höfuðeinkenni samlagshlutafélaga er að einn eða fleiri félagsmenn bera beina og ótakmarkaða persónulega ábyrgð á skuldbindingum félagsins og nefnast þeir þá ábyrgðaraðilar. Ábyrgð annarra félagsmanna (hluthafar), sem geta verið einn eða fleiri, takmarkast hins vegar við framlög þeirra sem mynda hlutafé í félaginu. Ábyrgðaraðilar geta verið hluthafar en það er ekki skilyrði.

Almennt gilda sömu reglur við stofnun samlagshlutafélaga og við stofnun hlutafélaga. Til dæmis er lágmarkshlutafé 4.000.000 kr. og stofnendur verða a.m.k. að vera tveir. Hins vegar gilda aðrar reglur um innihald samþykkta samlagshlutafélaga sem lúta sérstaklega að ábyrgðarmönnum félagsins.

Ef ábyrgðaraðili samlagshlutafélags er lögaðili verður tiltekinn einstaklingur að koma fram fyrir hönd ábyrgðaraðilans. Því verður að koma fram í stofngögnum hver sé forsvarsmaður ábyrgðaraðila sé hann lögaðili.

Ekki er skilyrði að stjórn sé kosin í samlagshlutafélagi en sé það gert skal ábyrgðaraðili ávallt eiga þar sæti og sé hann lögaðili þarf hann að tilnefna einstakling í sinn stað.

  

Ráðgjöf um góða stjórnarhætti

Með því að tileinka sér góða stjórnarhætti tryggja fyrirtæki ekki einungis framfylgni við ákvæði laga og félagssamþykkta því slík vinnubrögð auka almennt virði viðkomandi félaga, veita betri möguleika á framtíðarsölu þeirra og bæta ímynd.

LOCAL lögmenn hafa yfir að ráða sérfræðingum í góðum stjórnarháttum fyrirtækja sem hafa m.a. sinnt kennslu á því sviði um árabil.

LOCAL lögmenn eru viðurkenndir úttektaraðilar á góðum stjórnarháttum fyrirtækja af Viðskiptaráði Íslands og Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti hjá Háskóla Íslands og veita óháð mat á stjórnarháttum fyrirtækja. Fyrirtæki sem standast matsferlið fá veitta viðurkenningu þar að lútandi sem nefnist Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum.

LOCAL lögmenn veita ráðgjöf til stjórna fyrirtækja og stofnana varðandi góða stjórnarhætti, m.a. í tengslum við hlutverk og ábyrgð stjórnarmanna, gerð og yfirferð starfsreglna, stjórnarháttaryfirlýsinga, siðareglna og samsetningu stjórnar. Einnig veitum við ráðgjöf og fræðslu um samspil mismunandi stjórnareininga félaga, þ.e. framkvæmdastjórn, félagsstjórn og hluthafafundar og valdsvið þeirra innbyrðis, ákvarðanatöku innan félaga o.fl.

Þá höfum við áralanga reynslu af fundarstjórn og fundarritun á stjórnar- og hluthafafundum, önnumst alla skjalagerð í tengslum við slíka fundi, allt frá lögboðnum fundarboðunum til fundargerða, og veitum alhliða ráðgjöf um það efni.

Samrunar og yfirtökur

Að ýmsu þarf að huga þegar samrunar og yfirtökur félaga eru annars vegar. Mikilvægt er að rétt sé að verki staðið, hvort sem er í skjalagerð eða tilkynningum til viðeigandi opinberra aðila.

Þegar um samruna og yfirtökur er að ræða þarf gjarnan að afla heimilda frá ýmsum opinberum aðilum til að ljúka fyrirhuguðum viðskiptum, t.d. Samkeppniseftirlitinu eða fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Þá er oft ráðlegt að framkvæma lagalegar og fjárhagslegar áreiðanleikakannanir í aðdraganda umfangsmikilla viðskipta á þessu sviði. Einnig verður að huga að skattalegum afleiðingum sem leiða kunna af samrunum, yfirtökum og sölu fyrirtækja.

Sérfræðingar LOCAL lögmanna hafa viðamikla reynslu og þekkingu af framangreindum verkefnum tengdum samrunum, yfirtökum og sölu fyrirtækja. Þá býr stofan að mikilli reynslu af gerð fjármögnunarsamninga samhliða sterkum tengslum við lánastofnanir sem veitir okkur sérstöðu í frágangi viðskipta af þessu tagi.

Þjónusta LOCAL lögmanna á sviði samruna og yfirtöku fyrirtækja tekur m.a. til eftirfarandi:

  • gerð sölu- og samrunagagna og ráðgjöf þar að lútandi;
  • tilkynningar til eftirlitsaðila og öflun leyfa;
  • framkvæmd áreiðanleikakannana;
  • gerð fjármögnunarsamninga; og
  • aðstoð við að útvega fjármögnun og samskipti við lánastofnanir.

Vönduð vinnubrögð, þekking og reynsla okkar á öllum réttarsviðum er viðkoma samrunum og yfirtökum fyrirtækja tryggja viðskiptavinum stofunnar farsæla niðurstöðu.

 

Almenn hagsmunagæsla og ráðgjöf

Lagaumhverfi fyrirtækja er oft á tíðum flókið óháð félagaformi. Um starfsemi fyrirtækja gilda ólíkir lagabálkar sem innihalda fjölda lagareglna um réttindi og skyldur viðkomandi fyrirtækis, stjórnendur þess og hluthafa. Sem dæmi má nefna reglur sem lúta að minnihlutavernd hluthafa eins og rétti til að neyta atkvæðisréttar á hluthafafundum og bera fram tillögur á þeim vettvangi.  Einnig má nefna reglur um lækkun og hækkun hlutafjár, um sölu hluta og reglur um forkaupsrétt sem almennt virkjast við slíka atburði.

Til hliðar við þetta regluverk standa svo félagssamþykktir og eftir atvikum hluthafasamningar sem kveða gjarnan á um aðra réttarstöðu en annars gildir að lögum. Því er nauðsynlegt að túlka gildandi lagareglur með hliðsjón af slíkum gerningum. LOCAL lögmenn veita mikilvæga ráðgjöf á þessu sviði til félaga, stjórnenda og hluthafa í flestum geirum atvinnulífsins.

Sérfræðingar LOCAL lögmanna búa yfir mikilli þekkingu og reynslu á öllum þáttum félagaréttar sem nýtist viðskiptavinum okkar. Lögmenn stofunnar sinna almennri hagsmunagæslu fyrir fyrirtæki og hluthafa og veita ráðgjöf um réttindi þeirra, skyldur og möguleg úrræði ef upp koma ágreiningsmál af einhverjum toga.

Meðal verkefna sem við veitum liðsinni við á sviði félagaréttar eru eftirfarandi:

  • ráðgjöf við hækkun eða lækkun hlutafjár;
  • fjármögnun fyrirtækja og lántökur með breytirétti;
  • gerð kaupréttarsamninga við starfsmenn;
  • gerð og túlkun hluthafasamninga og samþykkta; og
  • almenn hagsmunagæsla og ráðgjöf vegna ágreiningsmála

Auður Ýr Helgadóttir

Lögmaður

Guðrún Bergsteinsdóttir

Lögmaður