Áreiðanleikakannanir (DD – Due diligence)

Skoða öll starfssvið

Hjá LOCAL lögmönnum starfar teymi sérfræðinga sem hefur mjög mikla reynslu af gerð áreiðanleikakannana, hvort sem um er að ræða lögfræðilegar- eða skattalegar kannanir.

Lögfræðileg áreiðanleikakönnun

Með framkvæmd lögfræðilegrar áreiðanleikakönnunar er varpað ljósi á raunverulega lagalega stöðu félags til að leiða í ljós hvort skipulag og rekstur félags sé í samræmi við lög og reglur. Þá er eignarréttur, skuldbindingar og skyldur félags kannaðar og áhersla er lögð á djúpa og nákvæma yfirferð.
Lögfræðileg áreiðanleikakönnun getur takmarkað og komið í veg fyrir áhættu af viðskiptum. Algengt og æskilegt er að áreiðanleikakönnun sé framkvæmd í tengslum við kaup, sölu, samruna, yfirtöku eða útboð á hlutafé félags. Enda varpar niðurstaða áreiðanleikakönnunar skýru ljósi á stöðu félags og veitir því þeim sem ekki þekkir til félags verðmætar upplýsingar frá þriðja aðila sem unnt er að byggja á. Þar með er gætt að aðgæsluskyldu kaupanda og upplýsingaskyldu seljanda.

Betra er að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofaní, segir málshátturinn. Þannig er það hagur seljanda að gera svokallaða seljanda áreiðanleikakönnun áður en hann leggur af stað í söluferli. Með því getur seljandi takmarkað þau atriði sem kunna að hafa áhrif til lækkunar á verði félagsins þegar söluferlið er hafið.

Skattaleg áreiðanleikakönnun

Með framkvæmd skattalegra áreiðanleikakannana eru skattskil könnuð, hvort undirliggjandi viðskipti og gerningar félags geti gefið skattyfirvöldum tilefni til endurálagningar og opinber gjöld séu í skilum. Skattaleg atriði tengd samrunum/og eða skiptingum eru tekin til skoðunar, sem og möguleg skattaleg áhrif þeirra viðskipta sem viðkomandi félag stundar eða hefur stundað.

Athugun er gerð á með hvaða hætti skattalegt fyrirkomulag er á milli tengdra aðila sem og viðskipti milli tengdra aðila og í því sambandi skoðað hvort og með hvaða hætti sé gætt að reglum um milliverðlagningu. Virðisaukaskattsmál félags eru heildstætt tekin til skoðunar og ef um er að ræða félög sem skráð eru frjálsri og/eða sérstakri skráningu á virðisaukaskattsskrá, er staða leiðréttingarkvaðar innskatts tekin til skoðunar.

Auður Ýr Helgadóttir
Auður Ýr HelgadóttirLögmaður
Auður er sérhæfð í áreiðanleikakönnunum.