Við erum leiðandi lögmannsstofa á sviði dvalar- og atvinnuleyfamála en víðtæk sérfræðiþekking innan stofunnar og skilvirk vinnubrögð tryggja framúrskarandi þjónustu á þessu sviði.

Lögmenn stofunnar veita einstaklingum og fyrirtækjum sérhæfða og alhliða ráðgjöf og þjónustu í tengslum umsóknir um hvers konar dvalarleyfi, atvinnuleyfi, tilkynningar til Vinnumálastofnunar vegna erlendra starfsmanna og umsóknir um íslenskan ríkisborgararétt.

Þjónusta okkar er sérsniðin að þörfum hvers viðskiptavinar fyrir sig. Markmið okkar er að umsóknarferlið gangi snurðulaust fyrir sig til að einstaklingur öðlist rétt til löglegrar dvalar á Íslandi. Þegar um er að ræða einstaklinga sem koma hingað til starfa hjá íslenskum fyrirtækjum eða vegum erlendra þjónustuveitenda, þá er markmið okkar að starfsmaður hafi tilskilin dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi til að hafa heimild til að hefja hér á landi störf á tilsettum tíma. Þjónusta okkar felst meðal annars í því að veita ráðgjöf um tegundir dvalar- og atvinnuleyfa, skilyrði leyfisveitingar, undirbúningi og frágangi umsókna og í hagsmunagæslu gagnvart Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun og Þjóðskrá á meðan umsókn er í vinnslu og þar til leyfi hefur verið veitt.

Dvalar- og atvinnuleyfi fyrir útlendinga og skráning EES- og EFTA ríkisborgara

Við fylgjum dvalar- og atvinnuleyfismálum eftir frá upphafi til enda og einföldum ferlið verulega fyrir einstaklinga sem sækja um heimild til dvalar á grundvelli atvinnu eða af öðrum ástæðum.

Ríkisborgarar frá löndum innan EES og EFTA ber að skrá sig hjá Þjóðskrá ætli þeir að dvelja lengur en 6 mánuði á Íslandi. Skráningin felur í sér skráningu lögheimilis og umsókn um íslenska kennitölu.

Nánustu aðstandendur EES/EFTA-borgara, sem ekki er EES/EFTA-borgari sjálfur, hefur heimild til að dvelja á Íslandi ef dvöl hans byggir á rétti EES/EFTA-borgara sem hefur dvalarrétt hér á landi. Nánustu aðstandendur EES/EFTA ríkisborgara eru maki (hjúskaparmaki og sambúðarmaki), börn eða barnabörn EES/EFTA ríkisborgara sem eru yngri en 21 árs eða á þeirra framfæri, og foreldrar, ömmur og afar EES/EFTA ríkisborgara.

EES/EFTA-borgarar eru ríkisborgarar: Austurríkis, Belgíu, Búlgaríu, Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Frakklands, Grikklands, Hollands, Írlands, Ítalíu, Króatíu, Kýpur, Lettlands, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborgar, Möltu, Noregs, Portúgals, Póllands, Rúmeníu, Spánar, Slóvakíu, Slóveníu, Sviss, Svíþjóðar, Tékklands, Ungverjalands og Þýskalands.

Lögmenn LOCAL lögmanna veita aðstoð og ráðgjöf í tengslum við umsóknir um atvinnuleyfi á Íslandi. Við leiðbeinum viðskiptavinum okkar í gegnum ferlið og veitum ráðgjöf um nauðsynleg gögn til stuðnings umsókn.

Hér að neðan má finna umfjöllun um helstu tegundir atvinnuleyfa á Íslandi en dvalarleyfi á Íslandi getur verið grundvöllur atvinnu fyrir erlenda ríkisborgara frá löndum utan EES og EFTA. Vinnumálastofnun annast útgáfu atvinnuleyfa og skráningu útlendinga á íslenskum vinnumarkaði.

Dvalar- og atvinnuleyfi fyrir sérfræðinga

Erlendur ríkisborgari getur sótt um dvalar- og atvinnuleyfi á grundvelli sérfræðiþekkingar. Sérfræðiþekkingin verður að vera mikilvæg fyrir íslenskan atvinnurekanda og fela í sér háskóla-, iðn-, list- eða tæknimenntun sem viðurkennd er hér á landi, eða, í undantekningartilvikum, að hinn erlendi ríkisborgari búi yfir langri starfsreynslu sem jafna megi til sérfræðiþekkingar.

Flutningur sérfræðings og/eða stjórnanda á milli starfsstöðva
Unnt er að sækja um atvinnuleyfi fyrir erlendan starfsmann sem atvinnurekandi erlendis óskar eftir að flytja tímabundið til starfa á starfsstöð hans hér á landi.

Störf sem krefjast sérhæfðrar þekkingar sem tímabundinn skortur er á Íslandi

Mögulegt er að sækja um tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérhæfðrar þekkingar sem tímabundinn skotur er á hér á landi og birt hefur verið í reglugerð. Í reglugerð skal birta lista yfir þau störf sem krefjast sérhæfðrar þekkingar sem tímabundinn skortur er á hér á landi. Á meðal starfa sem falla undir sérhæfða þekkingu sem tímabundinn skortur er á hér á landi má nefna ýmis störf stjórnenda í rannsóknum og þróun, störf í upplýsinga- og fjarskiptatækni, störf tengd kerfisstjórnun, sérfræðistörf við gagnagrunna og netkerfi, tæknistörf í efna- og eðlisfræði og verkfræði, sérfræðistörf við sjúkdómsgreininga- og lækningatæki, tæknistörf i landbúnaði, sérfræðistörf við forritun og við þróun og greiningu á hugbúnaði, tækni- og rannsóknarstörf í lífeindafræði og lyfjatækni og tæknistörf við upptökur og útsendingar.

Dvalar- og atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki

Dvalar- og atvinnuleyfi á grundvelli þess að á Íslandi sé skortur á vinnuafli er veitt þegar starfsfólk fæst ekki á íslenskum vinnumarkaði né innan Evrópska efnahagssvæðisins, í EFTA-ríkjum eða í Færeyjum.

Atvinnuleyfi veitt á þessum grundvelli er undantekning þar sem leyfi eru almennt veitt í þeim tilgangi að mæta sveiflum á íslenskum vinnumarkaði. Skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis vegna skorts á starfsfólki er að áður hafi verið leitað aðstoðar Vinnumálastofnunar við að finna starfsmann á Íslandi og innan Evrópska efnahagssvæðisins, EFTA-ríkja eða Færeyja.

Dvalar- og atvinnuleyfi fyrir sérhæfða starfsmenn á grundvelli þjónustusamnings

Við sérstakar aðstæður er heimilt að veita tímabundið atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna á grundvelli þjónustusamnings eða samstarfssamnings um kennslu-, fræði- eða vísindastörf.

Á meðal skilyrða fyrir atvinnuleyfi á grundvelli þjónustusamnings er að hið erlenda fyrirtæki sem veita á þjónustu hér á landi hafi ekki starfsstöð á Íslandi, að fyrir hendi sé þjónustusamningur milli hins erlenda þjónustufyrirtækis og hins innlenda notendafyrirtækis, að í þjónustusamningi sé tiltekið að nauðsynlegt sé að sá útlendingur sem sótt er um atvinnuleyfi fyrir sinni þeirri þjónustu sem veitt skal og að hann búi yfir sérhæfingu til að sinna þeirri þjónustu sem um er að ræða. Leyfi af þessu tagi eru ekki veitt vegna almennra ófaglærðra starfa. Starfsmaður hins erlenda atvinnurekanda skal hafa lokið háskólanámi sem er nauðsynlegt til að gegna viðkomandi starfi.

Þegar um er að ræða samstarfssamning um kennslu-, fræði- eða vísindastörf þarf slíkur samstarfssamningur að liggja fyrir á milli innlends og erlends atvinnurekanda. Í samstarfssamningi skal tilgreint að um sé að ræða starf sem starfsmaður hins erlenda atvinnurekanda mun gegna hér á landi á grundvelli samstarfs milli hins íslenska atvinnurekanda og erlenda atvinnurekandans í tengslum við kennslu-, fræði- eða vísindastörf.

Dvalar- og atvinnuleyfi fyrir íþróttafólk

Dvalar- og atvinnuleyfi getur verið veitt íþróttafólki vegna starfa hjá íþróttafélagi innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Íþróttafólk verður að hafa gengið frá ráðningarsamningi við íslenskt íþróttafélag um að stunda eða þjálfa tiltekna íþrótt hjá viðkomandi félagi.

Dvalar- og atvinnuleyfi fyrir námsmenn

Dvalarleyfi fyrir námsmenn eru veitt til að stunda fullt nám við háskóla á Íslandi, doktorsnám við erlendan háskóla sem er í samstarfi við íslenskan háskóla, skiptinám á vegum viðurkenndra skiptinemasamtaka, starfsnám þegar starf á Íslandi er hluti náms umsækjanda og iðnnám vegna viðurkennds starfsnáms á framhaldsskólastigi.

Mikilvægt er að sækja um dvalarleyfi í tæka tíð. Umsókn ásamt fylgigögnum þarf að berast í síðasta lagi 1. júní vegna haustannar og 1. nóvember vegna vorannar til að tryggt sé að dvalarleyfi verði afgreitt áður en skólahald hefst.

Í þeim tilfellum sem erlendur ríkisborgari er við nám á Íslandi má veita honum atvinnuleyfi. Meðal skilyrða fyrir atvinnuleyfi til námsmanna er að námsmaðurinn hafi gengið frá ráðningarsamningi við vinnuveitanda á Íslandi. Þá er það jafnframt skilyrði að starfshlutfallið sé ekki hærra en 60% með þeirri undantekningu þegar um námsleyfi eða verknám er að ræða. Enn fremur er þess krafist að erlendur ríkisborgari sýni fram á að hann hafi fengið dvalarleyfi á þeim grundvelli að hann sé námsmaður á Íslandi.

Atvinnuleyfi byggt á fjölskyldusameiningu

Erlendur ríkisborgari getur sótt um atvinnuleyfi á Íslandi ef aðstandandi hans er íslenskur ríkisborgari eða hefur atvinnuleyfi á Íslandi.

Dvalarleyfi vegna vinnudvalar fyrir ungt fólk

Unnt er að sækja um dvalarleyfi vegna vinnudvalar fyrir ungt fólk vegna vinnudvalar sem byggist á sérstökum samningum Íslands fyrir ríkisborgara Andorra, Bretlands, Chile, Kanada og Japan. Umsækjendur um slíkt dvalarleyfi þurfa að uppfylla almenn skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis, svo sem að geta sannað á sér deili með gildu vegabréfi, að gefa réttar upplýsingar um tilgang dvalar á Íslandi, að hafa trygga framfærslu, hafa gilda sjúkratryggingu á Íslandi og vera með hreint sakavottorð frá heimalandi.

Undanþágur frá atvinnuleyfi vegna skammtímavinnu

Samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga eru tilteknir hópar erlendra ríkisborgara undanþegnir því að þurfa að sækja um atvinnuleyfi á Íslandi sé um að ræða vinnu í allt að 90 daga. Það er skylt að tilkynna um slíka atvinnu til Vinnumálastofnunar áður en viðkomandi hefur störf. Með tilkynningu til Vinnumálastofnunar getur stofnunin tekið afstöðu til þess hvort viðkomandi starf fellur undir undanþáguna.

Eftirfarandi störf erlendra ríkisborgara eru undanþegin kröfu um atvinnuleyfi á Íslandi í allt að 90 daga:

  • Vísindamenn, fyrirlesarar og fræðimenn
  • Listamenn, að undanskildu tónlistarfólki sem ráða sig til starfa á veitingahúsum
  • Íþróttaþjálfarar
  • Ökumenn fólksflutningsbifreiða
  • Blaða- og fréttamenn erlendra miðla
  • Starfsmenn, ráðgjafar og leiðbeinendur sem vinna að sérhæfðri samsetningu, uppsetningu, eftirliti eða viðgerð tækja
  • Fulltrúar í viðskiptaerindum

Undanþágan á einkum við þegar um er að ræða erlenda ríkisborgara sem koma til landsins til að kynna vöru og þjónustu. Undanþágan á jafnframt við þegar erlendir ríkisborgarar mæta á viðskiptafundi.

Við veitum álit okkar á því hvort útlendingur teljist undanþeginn kröfunni um að þurfa atvinnuleyfi til að starfa hér á landi í allt að 90 daga, sbr. 23. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga. Jafnframt, veitum við aðstoð við að útbúa tilkynningar til Vinnumálastofnunar um störf útlendinga sem eru undanþegin með vísan til framangreinds.

Ef tilkynning hefur ekki verið send til Vinnumálastofnunar telst einstaklingur ekki undanþeginn atvinnuleyfi þar sem ákvæði 23. greinar í lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002, teljast ekki uppfyllt. Það kann að leiða til þess að starfsmaður verði stöðvaður á landamærunum og vísað frá á landamærum.

Dvalarleyfi fyrir maka á grundvelli fjölskyldusameiningar (hjúskapur og sambúð)

Dvalarleyfi getur verið veitt til einstaklings sem ætlar að flytja til Íslands í þeim tilgangi að búa með maka sínum, hvort sem um er að ræða á grundvelli hjúskapar eða sambúðar. Skilyrði er að makinn sé íslenskur eða frá Norðurlöndunum, sé með ótímabundið dvalarleyfi eða tímabundið dvalarleyfi vegna vinnu sem sérfræðingur, sem íþróttamaður, sem foreldri, vegna alþjóðlegrar verndar, af mannúðarástæðum, vegna sérstakra tengsla við landið eða sem nemi í framhaldsnámi.

Dvalarleyfi fyrir börn, 18 ára og yngri

Dvalarleyfi fyrir barn undir 18 ára getur meðal annars verið veitt ef foreldri þess býr á Íslandi og er íslenskur ríkisborgari, norrænn ríkisborgari, erlendur ríkisborgari með ótímabundið dvalarleyfi, erlendur ríkisborgari með tímabundið dvalarleyfi sem sérfræðingur, íþróttamaður/kona eða maki.

Það skilyrði er sett að viðkomandi hafi forsjá og umsjá þess barns og að barnið muni búa hjá foreldrinu á Íslandi.

Dvalarleyfi fyrir foreldra – 67 ára og eldri

Dvalarleyfi fyrir einstaklinga sem eru 67 ára og eldri getur verið veitt ef viðkomandi á uppkomið barn hér á landi og markmiðið er að flytja til Íslands.

Dvalarleyfi fyrir námsmenn eru veitt til að stunda fullt nám við háskóla á Íslandi, doktorsnám við erlendan háskóla sem er í samstarfi við íslenskan háskóla, skiptinám á vegum viðurkenndra skiptinemasamtaka, starfsnám þegar starf á Íslandi er hluti náms umsækjanda og iðnnám vegna viðurkennds starfsnáms á framhaldsskólastigi.

Mikilvægt er að sækja um dvalarleyfi tímanlega. Umsókn ásamt fylgigögnum þarf að berast í síðasta lagi 1. júní vegna haustannar og 1. nóvember vegna vorannar til að tryggt sé að dvalarleyfi verði afgreitt áður en skólahald hefst.

Erlendur ríkisborgari á aldrinum 18-25 ára, sem hefur áhuga á að vinna sem au-pair á Íslandi getur sótt um dvalarleyfi á grundvelli vistráðningar. Vistráðning er liður í menningarskiptum. Vistráðningin er skilgreind sem tímabundin móttaka fjölskyldu í tengslum við ákveðna þjónustu sem veitt er af ungum erlendum einstaklingum sem koma til Íslands í því skyni að bæta við tungumálaþekkingu sína og jafnvel faglega menntun, sem og að útvíkka menningarlega innsýn sína með því að kynnast því landi sem þau dvelja í.

Erlendur ríkisborgari frá landi utan ESS og/eða EFTA, sem vill dvelja á Íslandi lengur en 3 mánuði verður að hafa gilt dvalarleyfi.

Dvalarleyfi fyrir sjálfboðaliða eru fyrir einstaklinga sem eru eldri en 18 ára, sem ætla að starfa fyrir frjáls félagasamtök sem starfa að góðgerðar- eða mannúðarmálum. Félagasamtökin skulu ekki rekin í hagnaðarskyni og skulu undanþegin skattskyldu. Almenna viðmiðið er að samtökin starfi á alþjóðavísu.

Erlendir ríkisborgarar sem eru eldri en 18 ára geta sótt um dvalarleyfi sem trúboðar ef þeir koma til dvalar á Íslandi í trúarlegum tilgangi fyrir trúfélag eða þjóðkirkjuna. Á meðal skilyrða dvalarleyfisins er að einstaklingurinn sem sækir um dvalarleyfið muni vinna launalaust fyrir trúfélagið eða þjóðkirkjuna.

Erlendur ríkisborgari sem býr á Íslandi og hefur myndað tengsl hér á landi getur átt rétt á dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla.

Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland er veitt í undantekningartilvikum á grundvelli mats. Við matið lítur Útlendingastofnun til fjölskyldutengsla, umönnunarsjónarmiða og dvalar umsækjanda á Íslandi en í undantekningartilvikum er heimilt að veita dvalarleyfi þó umsækjandi hafi aldrei búið á Íslandi.

Einstaklingar eldri en 18 ára sem uppfylla ekki skilyrði annarra flokka dvalarleyfa eiga þess kost að sækja um dvalarleyfi vegna lögmæts og sérstaks tilgangs.

Leyfið er veitt í undantekningartilfellum og aðeins þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

Dvalarleyfi á grundvelli lögmæts og sérstaks tilgangs felur í sér heimild til veitingar dvalarleyfis en ekki skyldu til leyfisveitingar. Útlendingastofnun veitir dvalarleyfi af þessu tagi eða synjar því á grundvelli heildarmats á aðstæðum umsækjanda og fyrirliggjandi gögnum máls.

Einstaklingur sem hefur haft dvalarleyfi á Íslandi í 4 ár getur átt rétt á ótímabundnu dvalarleyfi sem felur í sér rétt til ótímabundinnar dvalar á Íslandi.

Einstaklingur sem haft hefur dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar, dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, dvalarleyfi fyrir íþróttafólk, dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við Ísland, dvalarleyfi fyrir trúboða og dvalarleyfi fyrir námsmenn (með takmörkunum), geta sótt um dvalarleyfi á grundvelli ótímabundins dvalarleyfis að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Á meðal skilyrða ótímabundins dvalarleyfis eru að hafa búið á Íslandi í fjögur ár í samfelldri dvöl, hafa sótt íslenskunámskeið, geta sýnt fram á trygga framfærslu og að eiga ekki ólokin mál í refsivörslukerfinu.

Ríkisborgararéttur

Erlendir ríkisborgarar, 18 ára og eldri, geta sótt um íslenskan ríkisborgararétt til Útlendingastofnunar.

Umsækjandi um íslenskan ríkisborgararétt þarf að uppfylla tiltekin skilyrði til að geta orðið íslenskur ríkisborgari þar á meðal skilyrði um að hafa ótímabundið dvalarleyfi á Íslandi eða vera undanþeginn skyldu til að hafa dvalarleyfi samkvæmt lögum um útlendinga. Þá þarf umsækjandi um íslenskan ríkisborgararétt að geta sannað með fullnægjandi hætti hver hann er með framlagningu vegabréfs eða ákveðinna kennivottorða. Jafnframt þarf umsækjandi að hafa staðist próf í íslensku í samræmi við þar til gerðar kröfur. Umsækjandi má ekki vera í vanskilum þannig að árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá honum á síðastliðnum þremur árum, bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta eða í vanskilum með skattgreiðslur. Þá verður umsækjandi að sýna fram á að hann geti séð fyrir sér sjálfur og hafi ekki þegið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi síðastliðin þrjú ár. Þá skal umsækjandi ekki hafa sætt sektum eða fangelsisrefsingum eða eiga ólokin mál í refsivörslukerfinu.

Alþingi hefur heimild til að veita íslenskan ríkisborgararétt með lögum. Við aðstoðum umsækjendur við að útbúa umsóknir um ríkisborgararétt til Alþingis.

Sérfræðingar LOCAL lögmanna geta aðstoðað þig við undirbúning og framlagningu umsóknar um íslenskan ríkisborgararétt.

Vegabréfsáritanir

Ríkisborgarar tiltekinna landa utan EES/EFTA þurfa að sækja um vegabréfsáritun áður en ferðast er til Íslands. Sótt er um vegabréfsáritanir í gegnum sendiráð eða ræðismann áður en ferðast er til landsins. Áritanir eru veittar í tengslum við viðskiptaferðir, ferðalög, einkaerindi (fjölskyldu eða vinir), styttri námskeið og í tengslum við stjórnmála-, vísinda-, menningar-, íþrótta- og trúarlega viðburði. Jafnframt er unnt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum að sækja um langtímavegabréfsáritun til Íslands sem og langtímavegabréfsáritun vegna fjarvinnu.

Íslandi er aðili að Schengen-samstarfinu. Um er að ræða samstarf 29 ríkja og miðar að því að tryggja frjálsa för fólks innan Schengen-svæðisins.

Ríkisborgarar tiltekinna ríkja utan EES/EFTA sem ekki eru aðilar að Schengen-svæðisins þurfa að fá áritun til Íslands í gegnum sendiráð eða ræðismann áður en ferðast er til landsins. Þeir ríkisborgarar utan EES/EFTA sem undanþegnir eru áritunarskyldu mega dvelja í allt að 90 daga á Schengen svæðinu án vegabréfsáritunar og má samanlögð dvöl á Schengen-svæðinu ekki fara yfir 90 daga á hverju 180 daga tímabili.

Áritanir eru veittar í tengslum við viðskiptaferðir, ferðalög, einkaerindi (fjölskyldu eða vinir), styttri námskeið og í tengslum við stjórnmála-, vísinda-, menningar-, íþrótta- og trúarlega viðburði.

Sérfræðingar LOCAL lögmanna geta aðstoðað við öflun áritana til Íslands og annarra landa.

Hægt er að sækja um útgáfu langtímavegabréfsáritunar í þeim tilvikum þegar umsækjandi er í löglegri dvöl á Íslandi, ætlar sér ekki að setjast að á landinu og tilgangur dvalarinnar fellur ekki undir ákveðna tegund dvalarleyfa.

Til að mynda getur langtímavegabréfsáritun verið veitt nánustu aðstandendum sem vilja dvelja lengur á Íslandi, til vitna eða aðila að dómsmáli sem þurfa að dvelja lengur hér á landi í tengslum við málareksturinn og til útlendinga sem koma til landsins í annars konar lögmætum tilgangi, svo sem listamanna, vísindamanna eða íþróttamanna þegar dvöl þeirra kallar ekki á útgáfu dvalar- og/eða atvinnuleyfis.

Í langtímavegabréfsáritun vegna fjarvinnu felst heimild til dvalar á Íslandi í 90 til 180 daga í þeim tilgangi að stunda fjarvinnu á Íslandi.

Í fjarvinnu felst skipulag og framkvæmd vinnu með notkun upplýsingatækni, þar sem vinna sem einnig væri hægt að inna af hendi á starfsstöð erlendis er unnin utan þeirrar starfsstöðvar hér á landi. Þeim sem sinnir fjarvinnu er óheimilt að starfa í þágu innlendra aðila eða starfa á annan hátt á íslenskum vinnumarkaði. Ef um slík störf er að ræða ber viðkomandi að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi.

Makar og börn geta fengið útgefna langtímavegabréfsáritun sem aðstandendur einstaklings í fjarvinnu.

Erlend þjónustufyrirtæki og tímabundnar starfsmannaleigur

Erlendum þjónustufyrirtækjum og tímabundnum starfsmannaleigum er skylt að skrá starfsemi sína hjá Vinnumálastofnun. Jafnframt er þeim skylt að veita upplýsingar um starfsmenn sem eru starfandi á Íslandi og afhenda afrit af ráðningarsamningum þeirra.

Þá ber slíkum félögum að framfylgja íslenskri skatta- og vinnuverndarlöggjöf.

LOCAL lögmenn veita fyrirtækjum ráðgjöf til að tryggja að uppfyllt séu skilyrði íslenskrar löggjafar sem gildir um erlend þjónustufyrirtæki og tímabundnar starfsmannaleigur. Þá aðstoðum við fyrirtæki við að sinna lögmætri tilkynningarskyldu til Vinnumálastofnunar sem og afhendingu viðeigandi gagna.

Umsóknir um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga

Sérstök regla gildir um skattlagningu erlendra sérfræðinga sem koma til starfa á Íslandi. Reglan felur í sér að erlendum sérfræðingum getur verið heimilt að draga 25% tekna frá tekjum, þ.e. 75% tekna viðkomandi sérfræðings eru tekjuskattsskyldar, bæði í staðgreiðslu og við endanlega álagningu, fyrstu þrjú árin í starfi.

Umsókn um skattalækkun samhliða nauðsynlegum gögnum þarf að skila til sérstakrar nefndar eigi síðar en þremur mánuðum frá þeim degi sem starfsmaðurinn hóf störf hér á landi.

LOCAL lögmenn veita ráðgjöf og aðstoð við undirbúning umsóknar um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga.

Stoðþjónusta

Við veitum aðstoð og ráðgjöf við húsnæðisleit á Íslandi. Við getum létt starfsmanni og vinnuveitanda hans lífið með því að finna húsnæði við hæfi. Húsnæðisleitin miðar að því að uppfylla þær kröfur og óskir sem gerðar eru hverju sinni.

Þjónusta okkar getur m.a. falist í:

• Að útbúa lista þar sem við greinum þarfir starfsmannsins/fyrirtækisins sem er í húsnæðisleit
• Kynning á hverfi (svæði) sem starfsmaðurinn vill búa í
• Aðstoð við gerð leigusamninga
• Gerð skoðunarskýrslu við upphaf leigu og myndir teknar af hinu leigða
• Aðstoð við endurnýjun leigusamnings
• Aðstoð tengd uppsögn leigusamnings og leigulokum. Við útbúum skoðunarskýrslu við leigulok og tökum myndir af hinu leigða.

Það er mikilvægt fyrir starfsmanninn að öðlast góða innsýn í það hverfi (stað) sem hann kemur til með að búa í. Við aðstoðum starfsmanninn við að fá góða tilfinningu og innsýn inn í staðhætti, svo sem hvað hverfið (staðurinn) hefur upp á að bjóða og hvar hann geti nálgast viðeigandi þjónustu. Á þann hátt er leitast við að flýta aðlögun starfsmannsins þannig að honum geti liðið vel í nýju umhverfi.

Þjónusta í tengslum við aðlögun að nýju hverfi (stað)

Við bjóðum upp á margvíslega þjónustu sem felst í aðstoð við aðlögun starfsfólks að nýjum heimkynnum. Það er mjög mikilvægt að kynna hverfi (svæði) fyrir starfsmanninum. Þjónusta af þessu tagi felur í sér að starfsmanninum gefst kostur á að einbeita sér að starfi sínu auk þess sem fjölskyldumeðlimum hans verður kleift að aðlagast íslenskum aðstæðum með skjótari hætti. Stuðningur og aðstoð af þessu tagi við starfsmann og fjölskyldu hans mun án nokkurs vafa flýta fyrir aðlögun í nýju landi og þar með draga úr streitu sem getur fylgt því að flytja í óþekktar aðstæður í nýju landi.

Þjónusta okkar getur m.a. falist í:

• Aðstoð við stofnun bankareiknings og skráning í lífeyrissjóð.
• Skoðunarferð um nærumhverfi
• Skoðunarferð um önnur svæði en nærumhverfi samkvæmt ósk starfsmanns og/eða fjölskyldumeðlimar
• Hagnýtum upplýsingum um það hverfi (svæði) sem starfsmaðurinn mun búa á
• Aðstoð í tengslum við veitu- og nettengingar
• Aðstoð við kaup eða leigu á bifreið
• Skoðun leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla fyrir börn starfsmanns. Aðstoð við skráningu í skóla.
• Leiðbeiningar í tengslum við aðgengi að læknisþjónustu, þ.m.t. heilsugæslu
• Tryggingamál, s.s. aðstoð við kaup á ökutækja-, eigna- og persónutryggingum
• Ökuskírteini og skráning bifreiðar
• Almenn upplýsingagjöf um ýmislegt sem tengist því að búa og starfa á Íslandi
• Þýðingarþjónusta

Íslenskt skólakerfi greinist í fjögur skólastig: leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla. Menntun er skylda fyrir börn á aldrinum 6-16 ára.
Þegar starfsmaður flytur til Íslands og er með börn á skólaaldri, skiptir val á réttum skóla miklu máli. Val á skóla getur sannarlega haft áhrif á hvar fjölskyldan kýs að búa. Þess vegna er mikilvægt að tryggja skólapláss í tæka tíð enda mun það flýta fyrir því að starfsmaður og fjölskylda hans geti komið sér fyrir og starfsmaðurinn geti að fullu einbeitt sér að sínu nýja starfi í nýju landi.

Við getum aðstoðað við eftirfarandi:

• Leit að skólum í samræmi við þarfir
• Bókun í viðtöl hjá skólastjórnendum
• Aðstoð við skráningu
• Samanburður á skólum

Snurðulaus flutningur frá Íslandi hefur mikla þýðingu. Við tryggjum að flutningur starfsmanns frá Íslandi gangi vel fyrir sig. Við veitum alhliða stuðning og aðstoð við starfsmann sem flytur frá Íslandi til heimalands síns eða á annan stað.

Þjónusta okkar getur m.a. falist í:

• Uppsögn leigusamnings
• Tilkynning til íslenskra stjórnvalda um brottför, s.s. til Þjóðskrár, Útlendingastofnunar og Vinnumálastofnunar
• Tilkynning um flutning til veitufyrirtækja
• Leigusamningslok, flutningsþrif og skil húsnæðis til leigusala
• Samningslok vegna leigu húsgagna
• Viðræður við leigusala vegna kröfu um greiðslu úr tryggingafé
• Skil tryggingafjárhæðar til leigutaka
• Tilkynning um afskráningu í skólum
• Tilkynning um hvert senda skuli póst vegna nýs heimilisfangs

Flutningur gæludýra

Við getum aðstoðað þig/starfsmann þinn við að flytja gæludýr til landsins. Aðstoð okkar felst í því að skipuleggja ferðaáætlun þína og gæludýrsins, t.d. að bóka flug fyrir dýrið. Þá önnumst við samskipti við Matvælastofnun (MAST) og öflun tilskilinna leyfa fyrir innflutning gæludýrsins. Ef kröfur eru gerðar um sóttkví þá bókum við tíma í sóttkví hjá einangrunarstöð.