Við erum leiðandi lögmannsstofa á sviði dvalar- og atvinnuleyfamála en víðtæk sérfræðiþekking innan stofunnar og skilvirk vinnubrögð tryggja framúrskarandi þjónustu á þessu sviði.
Lögmenn stofunnar veita einstaklingum og fyrirtækjum sérhæfða og alhliða ráðgjöf og þjónustu í tengslum umsóknir um hvers konar dvalarleyfi, atvinnuleyfi, tilkynningar til Vinnumálastofnunar vegna erlendra starfsmanna og umsóknir um íslenskan ríkisborgararétt.
Þjónusta okkar er sérsniðin að þörfum hvers viðskiptavinar fyrir sig. Markmið okkar er að umsóknarferlið gangi snurðulaust fyrir sig til að einstaklingur öðlist rétt til löglegrar dvalar á Íslandi. Þegar um er að ræða einstaklinga sem koma hingað til starfa hjá íslenskum fyrirtækjum eða vegum erlendra þjónustuveitenda, þá er markmið okkar að starfsmaður hafi tilskilin dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi til að hafa heimild til að hefja hér á landi störf á tilsettum tíma. Þjónusta okkar felst meðal annars í því að veita ráðgjöf um tegundir dvalar- og atvinnuleyfa, skilyrði leyfisveitingar, undirbúningi og frágangi umsókna og í hagsmunagæslu gagnvart Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun og Þjóðskrá á meðan umsókn er í vinnslu og þar til leyfi hefur verið veitt.
Dvalar- og atvinnuleyfi fyrir útlendinga og skráning EES- og EFTA ríkisborgara
Við fylgjum dvalar- og atvinnuleyfismálum eftir frá upphafi til enda og einföldum ferlið verulega fyrir einstaklinga sem sækja um heimild til dvalar á grundvelli atvinnu eða af öðrum ástæðum.
Ríkisborgararéttur
Erlendir ríkisborgarar, 18 ára og eldri, geta sótt um íslenskan ríkisborgararétt til Útlendingastofnunar.
Umsækjandi um íslenskan ríkisborgararétt þarf að uppfylla tiltekin skilyrði til að geta orðið íslenskur ríkisborgari þar á meðal skilyrði um að hafa ótímabundið dvalarleyfi á Íslandi eða vera undanþeginn skyldu til að hafa dvalarleyfi samkvæmt lögum um útlendinga. Þá þarf umsækjandi um íslenskan ríkisborgararétt að geta sannað með fullnægjandi hætti hver hann er með framlagningu vegabréfs eða ákveðinna kennivottorða. Jafnframt þarf umsækjandi að hafa staðist próf í íslensku í samræmi við þar til gerðar kröfur. Umsækjandi má ekki vera í vanskilum þannig að árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá honum á síðastliðnum þremur árum, bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta eða í vanskilum með skattgreiðslur. Þá verður umsækjandi að sýna fram á að hann geti séð fyrir sér sjálfur og hafi ekki þegið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi síðastliðin þrjú ár. Þá skal umsækjandi ekki hafa sætt sektum eða fangelsisrefsingum eða eiga ólokin mál í refsivörslukerfinu.
Alþingi hefur heimild til að veita íslenskan ríkisborgararétt með lögum. Við aðstoðum umsækjendur við að útbúa umsóknir um ríkisborgararétt til Alþingis.
Sérfræðingar LOCAL lögmanna geta aðstoðað þig við undirbúning og framlagningu umsóknar um íslenskan ríkisborgararétt.
Vegabréfsáritanir
Ríkisborgarar tiltekinna landa utan EES/EFTA þurfa að sækja um vegabréfsáritun áður en ferðast er til Íslands. Sótt er um vegabréfsáritanir í gegnum sendiráð eða ræðismann áður en ferðast er til landsins. Áritanir eru veittar í tengslum við viðskiptaferðir, ferðalög, einkaerindi (fjölskyldu eða vinir), styttri námskeið og í tengslum við stjórnmála-, vísinda-, menningar-, íþrótta- og trúarlega viðburði. Jafnframt er unnt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum að sækja um langtímavegabréfsáritun til Íslands sem og langtímavegabréfsáritun vegna fjarvinnu.
Erlend þjónustufyrirtæki og tímabundnar starfsmannaleigur
Erlendum þjónustufyrirtækjum og tímabundnum starfsmannaleigum er skylt að skrá starfsemi sína hjá Vinnumálastofnun. Jafnframt er þeim skylt að veita upplýsingar um starfsmenn sem eru starfandi á Íslandi og afhenda afrit af ráðningarsamningum þeirra.
Þá ber slíkum félögum að framfylgja íslenskri skatta- og vinnuverndarlöggjöf.
LOCAL lögmenn veita fyrirtækjum ráðgjöf til að tryggja að uppfyllt séu skilyrði íslenskrar löggjafar sem gildir um erlend þjónustufyrirtæki og tímabundnar starfsmannaleigur. Þá aðstoðum við fyrirtæki við að sinna lögmætri tilkynningarskyldu til Vinnumálastofnunar sem og afhendingu viðeigandi gagna.
Umsóknir um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga
Sérstök regla gildir um skattlagningu erlendra sérfræðinga sem koma til starfa á Íslandi. Reglan felur í sér að erlendum sérfræðingum getur verið heimilt að draga 25% tekna frá tekjum, þ.e. 75% tekna viðkomandi sérfræðings eru tekjuskattsskyldar, bæði í staðgreiðslu og við endanlega álagningu, fyrstu þrjú árin í starfi.
Umsókn um skattalækkun samhliða nauðsynlegum gögnum þarf að skila til sérstakrar nefndar eigi síðar en þremur mánuðum frá þeim degi sem starfsmaðurinn hóf störf hér á landi.
LOCAL lögmenn veita ráðgjöf og aðstoð við undirbúning umsóknar um frádrátt frá tekjum erlendra sérfræðinga.
Stoðþjónusta
eða hafa samband:
local@locallogmenn.is